Eins og kylfingar hafa tekið eftir, þá hefur viðrað vel undanfarna daga og ekki laust við að mönnum sé farið að kitla í fingurna að komast út á völl. Veðurspáin fyrir næstu viku er þó ekki mjög góð, en búist er við miklu frosti, allt niður í -8 gráður. Slíkt frost getur seinkað miklu fyrir okkur. Vallastarfsmenn hafa verið að reyna að undirbúa flatirnar eins og hægt er undir þetta frost.
Flatir voru valtaðar í gær, fimmtudaginn 4. apríl, og síðan úðaðar með áburðarblöndu. Áburðurinn er ekki mjög sterkur enda ekki ætlað að koma miklum vexti af stað, heldur að tryggja að flatirnar séu ekki of mátvana eftir veturinn, til að fara inn í frostakaflann. Í dag, föstudaginn 5. Apríl, voru flatir svo sandaðar. Markmiðið er að hylja krúnu grassins (krúnan er vaxtarpunktur grassins þar sem lauf og rætur vaxa út frá). Það er mikilvægt að krúnan verði ekki fyrir skemmdum á þessum tíma. Sandurinn hjálpar einnig til við að auka hitastigið í yfirborðinu á daginn þegar sólin skín.
Við vonum að þessar aðgerðir dragi úr mögulegum skaða, ef frostið verður jafn slæmt og spár gera ráð fyrir. Við munum svo hleypa inn á flatir eins fljót og við teljum mögulegt þegar hitinn fer svo að skríða aftur uppá við og grasið fer að vaxa.