Ávarp formanns
Þetta var án efa eitt skrýtnasta golfsumar sem við höfum upplifað lengi en opnun vallar var seinkað um þrjár vikur eða til 28. maí og þrátt fyrir þessa miklu seinkun var völlurinn engan veginn tilbúin til móttöku á þeirri miklu umferð sem skall á strax á fyrsta degi, þrátt fyrir að veður væri alls ekkert gott. Vellirnir voru hreint út sagt í hræðilegu ástandi, teigar, brautar, flatir, engu hafði verið hlíft af vetrinum.
Vallarstarfsmenn lögðu nótt við dag að koma vellinum til, mikið var sáð og dekstrað við völlinn með öllum tiltækum ráðum. Skemmdir voru miklar og það þurfti mikið átak til einfaldlega að gera völlinn spilahæfan. En eftir hörmulega byrjun kom júlí, sólin og samfelld blíða sem átti eftir að vara nánast það sem eftir var af tímabilinu og er næsta víst að aldrei hafi verið hægt að spila jafn oft á stuttermabol og í sumar.
Starfsárið
Myndir frá yfirstandandi starfsári Keilis.
Erfið byrjun eftir þungan vetur
Golfsumarið 2023 byrjaði heldur seint í samanburði við síðustu ár. Vellirnir urðu fyrir gríðarlegu tjóni um veturinn og fresta þurfti opnun Hvaleyrarvallar til mánaðarmóta maí/júní. Hreinsunardagurinn var haldinn 27. maí og opnunarmótið þann 28. Hreinsunardagurinn gekk vel og var vel sóttur. Þrátt fyrir skemmdir á völlunum hóst golfsumarið með látum í framhaldinu. Eftir erfiðan vetur var maímánuður einnig mikil vonbrigði. Kalt var í veðri, úrkoma tvöfalt meiri en á meðalári og sólarstundir aldrei mældar færri.
Mikið um nýframkvæmdir
Unnið var í tveimur nýjum brautum á árinu. Verðandi 16. holu (par 5) og verðandi 17. holu (par 3). 17. hola, sem var tilbúin að mestu, fór illa í vetur og þurfti því meiri tíma til að koma henni í stand en til stóð. Auk endurheimt grass á 17. holu voru gerðar gönguleiðir með sjálfvirku vökvunarkerfi, bæði frá 17. teig að 17. flöt og frá 17. tlöt að 18. teig. 17. brautin er því svo gott sem tilbúin til opnunar utan smávegis tyrfinga á gönguleiðum, sem bíða fram á vor.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
Keilir hefur verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá árinu 2017. Eitt af fyrstu verkefnum í starfi sem íþróttastjóri Keilis var að gera golfklúbbinn að fyrirmyndarfélagi ÍSÍ og skiptir það okkur miklu máli að fá endurnýjunina í dag til að geta vísað í á einum stað, stefnur, markmiðum, þjálfunaraðferðir og öllum þeim fjölmörgu atriðum sem að tengist öllu okkar góða starfi.
Viðunandi rekstur
Rekstur Golfklúbbsins Keilis var viðunandi á síðasta rekstrarári en afkoman var lakari en áætlað var. Þó var mikil aukning í tekjum milli ára vegna tilkomu veitingasölunnar.
Tekjur á árinu 2023 voru 408,9 mkr. samanborið við 324,6 mkr. árinu áður. Gjöld voru 382,6 mkr. samanborið við 288,9 mkr. á árinu 2022. Tekjur jukust þannig um 26% á móti kostnaði sem jókst um 32%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 26,3 mkr. á árinu 2023 samanborið við 35,7 mkr. árinu áður.