Mótahald og skemmtanir

Mótahald sumarsins var með tiltölulega hefðbundnu sniði. Þrátt fyrir að Hvaleyrarvöllur opnaði seinna en gengur og gerist í venjulegu árferði tókst að halda öll þau mót sem lagt var upp með. Alls voru haldin 16 golfmót á Hvaleyrarvelli í sumar.

Jónsmessan var haldin á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga þann 17. júní. Mótið hefur um árabil verið eitt af skemmtilegustu mótum ársins og var þetta skiptið engin undantekning. Alls tóku 112 kylfingar þátt í mótinu sem haldið var í blíðskaparveðri. Leikið var 18 holu texas scramble sem lauk svo með grillveislu að hætti Hrefnu. Stefán Jakobsson, eða Stebbi Jak eins og hann er kallaður, mætti síðan um kvöldið og hélt uppi fjörinu

Hvaleyrarbikarinn var haldinn dagana 25-27. júlí. Var þetta í 8 skipti sem þetta mót er haldið, sem hefur orðið að ákveðinni hefð hjá Keili. Mótið hefur hingað til verið eitt af stærstu mótum ársins á GSÍ mótaröðinni og hefur Keilir alltaf lagt mikinn metnað að búa til eins flotta umgjörð og völ er á.
Á golfþingi sem lauk nýlega var ákveðið að stokka upp í mótahaldi fyrir bestu kylfinga landsins og verður Hvaleyrarbikarinn áfram á mótaskrá GSÍ sem eitt af 4 ”risamótum” ársins.

Meistaramót Keilis fór fram dagana 2-8. júlí. Mótið er ávallt hápunktur sumarsins og má segja að það sé vikulöng veisla í golfskálanum á meðan mótinu fer fram. Alls tóku 337 kylfingar þátt í Meistaramótinu þetta árið.
Eins og gefur að kynna er ekki einfalt að halda vikulangt golfmót þar sem yfir 300 kylfingar taka þátt. Mikið álag er á starfsmönnum klúbbsins, þá sér í lagi vallarstarfsmönnum sem eru mættir til starfa um hámiðja nótt á meðan mótinu stendur til að sjá til þess að völlurinn sé í sínu besta standi. Eiga þeir mikið hrós skilið fyrir sitt framlag.

Formlegu mótahaldi var síðan slitið með Bændaglímunni. Bændaglíman hefur fest sig í sessi hjá mörgum kylfingum sem síðasti hringur ársins á Hvaleyrarvelli og má segja að í ár hafi mótið verið haldið með smá aukið tilfinningalegt vægi þar sem þetta var síðasta skiptið sem félagsmenn fengu að leika 10. holuna. Mótið var haldið laugardaginn 30. september og tóku alls 61 kylfingar þátt í mótinu. Eins og alltaf á þessum árstíma helst aðsókn í hendur á veðri sem var upp og ofan á meðan leik stóð. Kylfingar voru því fegnir að komast inn í hlýjuna eftir hring og gæða sér á veitingum. Eyjólfur Kristjánsson og hinn íslenski Elvis sáu um skemmtanahald kvöldsins.

Lagt var upp með að halda Þorrablót fyrir félagsmenn. Var að lokum ákveðið að blása það af vegna slæmrar skráningar.

Haldið var jólahlaðborð Keilis þann 25. nóvember þar sem félagsmenn gátu komið saman og átt notalega kvöldstund. Jólahlaðborðið var haldið í samvinnu með NOMY veisluþjónustu. Alls mættu 50 manns.