Skýrsla íþróttastjóra

Hjá Golfklúbbnum Keili fer fram öflugt íþróttastarf þar sem að allir geta fundið æfingar og þjálfun við sitt hæfi.

Golfklúbburinn Keilir er fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá árinu 2017.

Að vera fyrirmyndarfélag er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar sem snýr að íþróttastarfi.

Verkefnið gildir í fjögur ár og í ár fegnum við endurnýjun á  viðurkenninguna. Viðurkenningin er fyrir alla íþróttastarfsemi klúbbsins, fyrir unga sem aldna en en ekki bara barna- og unglingastarfið.

Auk þess eru siðareglur Keilis og hafa þær verið í gildi í nokkur ár.

Þær eiga að  veita öllum félagsmönnum, starfsmönnum, þjálfurum, foreldrum og öllum þeim sem koma að starfinu  almennar leiðbeiningar bæði í leik og starfi.

Einnig er unnið eftir jafnréttisáætlun og forvarnarstefnu og hafa öll þessi gögn fengið samþykki í tengslum við fyrirmyndarfélag ÍSÍ.

Einnig er nýlega kominn út samræmd viðbraðgsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðstarf.

Viðbragðsáætlunin veitir íþrótta- og æskulýðsfélögum samræmdar leiðbeiningar þegar erfið og flókin mál af ýmsum toga koma upp. Viðbragðsáætlunin er einföld og á við í öllum tilvikum, óháð því um hvaða aðila og atvik er um að ræða.

Dæmi um atvik sem að viðbragðsáætlunin nær til eru slys, veikindi, náttúruhamfarir, einelti og ofbeldi. Einnig eru þar gagnlegar upplýsingar um meðal annars ferðalög, hinseginleika og fjölmenningu og inngildingu í félagsstarfi, öryggismál og skráningu atvika.

Íþróttastjóri Keilis vann að golfnámskrá Keilis sem fjallar um skipulag, kennslu og þjálfun barna og unglinga og allra annarra kylfinga í Golfklúbbnum Keili. Námskráin hefur þann tilgang að móta stefnu og leggja grunninn að uppbyggingu og gera allt íþróttastarf Keilis öflugra.

 

Til umhugsunar fyrir öflugt starf

Mikilvægast af öllu er að fyrstu kynni af golfíþróttinni séu jákvæð og að börnum og unglingum líði vel og þau finni að þau séu velkomin til okkar.

Golfiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt. Með því móti skapast aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga að njóta sín og æfa golf hjá Keili.

Faglega er staðið að þjálfun barna og ungmenna og starfið er öflugt. Það er nú þegar farið að skila mjög góðum árangri þar sem við eigum marga af efnilegustu kylfingum landsins í flokki 10 ára og yngri, 12 ára og yngri og í flokkum 16 ára og yngri.

Framtíðin er björt hjá Keili í golfstarfinu. Efniviðurinn er mikill og þar þarf að vanda til verka. Það er búið að leggja mikla rækt við uppbyggingu og þjálfun á undanförnum árum enda hefur fjölgað jafnt og þétt ár frá ári.

Stór hluti af þeim verður vonandi hryggjarstykkið í keppnis og afreksmannahópum okkar í framtíðinni.

Það er ansi mikið þolinmæðisverk, er krefjandi og mikil vinna sem í því felst að byggja upp kylfinga í byrjun og halda þeim við efnið.

Í íþróttastarfi Keilis getur þú æft eins og þér hentar, þú skiptir máli. Allir fá gefin jöfn tækifæri til að stunda golf óháð því hvort einstaklingurinn vilji keppa eða ekki, viljir verða afreksmaður eða ekki.

Krakkar frá 5 ára geta byrjað að æfa golf undir leiðsögn góðra þjálfara hjá Keili sem eru með mikla og góða reynslu á öllum sviðum golfíþróttarinnar.

Við erum eini golfklúbburinn sem býður upp á golfkennslu fyrir elstu deildir leikskóla.

Áfram Keilir,
Karl Ómar Karlsson íþróttastjóri Keilis