Golfleikjaskóli Keilis

Golfleikjaskóli Keilis starfaði í sumar með breyttu sniði. Skólinn var eingöngu haldin fyrir hádegi eða frá kl. 9:00 til 12:00. Þrátt fyrir það jókst fjöldi krakka í skólanum.

Skipulag og allt utanumhald er mikilvægur þáttur í skólanum.

Skólinn í ár gekk mjög vel og var uppselt á öll námskeið nema það fyrsta. Skráningar voru 241 talsins, 89 stelpur og 152 strákar.

Leiðbeinendur sem störfuðu við skólann voru fjórtán talsins.

Skólastjóri var Karl Ómar Karlsson íþróttasjóri Keilis og auk þess sem Svanberg Addi  Stefánsson sá um að allt gengi vel fyrir sig og stóð hann sig frábærlega í alla staði.

Markmið skólans er að fyrstu kynni af golfi eru jákvæð og það er gaman að leika golf. Farið er í helstu þætti golfleiksins, allt frá púttum til upphafshögga og leiknar eru nokkrar golfholur á golfvelli.

Öll kennsla er í formi þrauta og golfleikja og er lögð áhersla á að kynna helstu golfsiði og golfreglur fyrir krökkunum.

Skólinn hefur verið mikil stökkpallur fyrir þau sem hafa áhuga á því að byrja að æfa golf og taka þátt í barnastarfi og íþróttastarfi Keilis. Keilir hefur fengið ansi marga krakka til að byrja að æfa golf og að gerast kylfingar í starfinu.

Í haust fengu foreldrar golfskólakrakka sumarsins boð um að börnin þeirra gætu tekið þátt í íþróttastarfi Keilis 18 ára og yngri sér að kostnaðarlausu.  Foreldar fengu að ráða því á hvaða dögum börn þeirra mættu. Þar sem þau flest eru að æfa aðrar íþróttir og erfitt að mæta á allar æfingar sem kannski skarast á við aðrar íþróttagreinar.

Hægt var að velja á milli þess að æfa golf hjá Keili 1x eða 2x í viku á mánudögum til fimmtudaga frá kl. 15:00 eða kl. 16:00. Hver æfing er í 50 mín.

Einnig var ákveðið að fylgja betur eftir skólaskipulagi og var ekkert hlé gert á golfæfingum í haust heldur hélt rútínan að mæta á golfæfingar með skólanum.  Frístundabíllinnn var notaður óspart við að keyra unga kylfinga á golfæfingar strax eftir skóla.

Mjög góð þátttaka er búið að vera frá því í september á aldrinum 12 ára og yngri. Hlé verður gert á golfæfingum í desember en síðan verður haldið áfram með golfæfingar í byrjun janúar.

Skráningar í golfleikjaskólanum undanfarin ár.