Ávarp formanns

Golfárið 2023

Þetta var án efa eitt skrýtnasta golfsumar sem við höfum upplifað lengi en opnun vallar var seinkað um þrjár vikur eða til 28. maí  og þrátt fyrir þessa miklu seinkun var völlurinn engan veginn tilbúin til móttöku á þeirri miklu umferð sem skall á strax á fyrsta degi, þrátt fyrir að veður væri alls ekkert gott. Vellirnir voru hreint út sagt í hræðilegu ástandi, teigar, brautar, flatir, engu hafði verið hlíft af vetrinum.

Vallarstarfsmenn lögðu nótt við dag að koma vellinum til, mikið var sáð og dekstrað við völlinn með öllum tiltækum ráðum.  Skemmdir voru miklar og það þurfti mikið átak til einfaldlega að gera völlinn spilahæfan En eftir hörmulega byrjun kom júlí, sólin og samfelld blíða sem átti eftir að vara nánast það sem eftir var af tímabilinu og er næsta víst að aldrei hafi verið hægt að spila jafn oft á stuttermabol og í sumar.

Leiknir hringir á Hvaleyrarvelli voru 34.194 í stað 35.716 árið 2022. Leiknir voru 11.131 hringir á Sveinskotsvelli og er ánægjulegt að sjá aukningu þar milli ára en árið 2022 voru 8.711 hringir leiknir á Sveinskotsvelli.   Félagsmenn voru 1.684 í lok árs þar af 338 félagar skráðir á Sveinskotsvöll.  Meðalfjöldi leikinna hringja var 15 en um 624 félagsmann spiluðu 15 hringi eða fleiri á árinu.

Góðir félagar kveðja

Þetta árið minnumst við tveggja formanna úr félaginu ásamt einum miklum velgjörðarmanni Keilis. Formennirnir  Guðlaugur Gíslasson sem var formaður Keilis árin 1986-1990 og Ólafur Ágúst Þorsteinsson sem sat sem formaður á árunum 1981-1983 létust á árinu. Þá einnig kvaddi okkur Sigurbergur Sveinsson sem átti hugmyndina að þeim möguleika að fá Hvaleyrina leigða undir golfvöll og var frumkvöðull í viðræðum við landeigendur og bæjaryfirvöld um þá hugmynd.  Án krafta þeirra og áhuga væri Golfklúbburinn Keilir ekki svona vel settur í dag og starfið í fremstu röð golfklúbba á Íslandi.

Um leið og við kveðjum góða félaga með einlægri þökk vottum við aðstandendum okkar dýpstu samúð og þakkir fyrir tímann þeirra til handa Keili.

Aðgengi að vellinum.

Mál málanna þetta árið var aðgengi að Hvaleyrarvelli enda völlurinn fullbókaðar frá morgni til kvölds alla daga og erum við með um 74% nýtingu á vellinum ef horft er yfir allan daginn en á tímabilinu frá 09:00-17:00 er nýtingin 86% sem hlýtur að teljast gríðarlega hátt hlutfall í heildina.

Það hefur orðið töluverð breyting á rástímaskráningu síðustu ár þar sem kylfingar virðast nú frekar skrá rástíma til að eiga óháð því hvort þeir ætli að spila til að tryggja sér aðgengi, og síðan er afbókað og þá oft of seint og erfitt fyrir aðra kylfinga að nýta þá rástíma sem eru afbókaðir  með skömmum fyrirvara.  Tekin var upp sú regla að afbóka þyrfti rástíma með meira en tveggja tíma fyrirvara nú í ár og teljum við að það hafi skilað ágætis árangri og skoða má hvort að lengja eigi þennan tíma enn frekar.  Verið er að skoða allar hugmyndir um hvernig hægt sé að tryggja fleirum meira aðgengi að vellinum.  Það eru engir dauðir tímar lengur eins og áður og hefur verið reynt að takmarka eins og hægt er komu utanaðkomandi hópa sem áður voru bókaðir utan álagstíma en sá tími er einfaldlega ekki til lengur.  Skoðað hefur verið að taka upp skráningargjald sem gjaldfærist um leið og bókað er og er óafturkræft, en Golfbox styður einfaldlega ekki við þessa framkvæmd í dag og sú hugmynd því slegin út af borðinu eins og er. Margar aðrar lausnir hafa verið ræddar eins og t.d. að ræsa út á 9 mínútna fresti en auðvelt er að prófa hvort það virki án mikilla vandamála. Annars er unnið að því að greina tölfræði á bak við notkun kylfinga að golfvellinum til þess að finna sanngjarna leið svo fleiri geti spilað. Breytinga er klárlega þörf en mikilvægt að sátt verði um þær breytingar sem farið verður í.

 

Veitingasala

Keilir tók nokkuð óvænt við rekstri veitingasölu í vor og fór allt á fullt að finna rekstraraðila og ráða inn fólk.  Veitingasalan er lungað í klúbbnum og þarf að halda vel á spilunum til að vel gangi og sátt sé. Þrátt fyrir byrjunarörðuleika þá náðist að ná upp afgreiðsluhraða og slípa flest alla vankanta af nú í sumar. Enda kemur veitingasalan vel út í viðhorfskönnun Keilis og vonandi náum við að byggja ofan á það á næsta ári. Stóðu Hrefna og hennar fólk vaktina í sumar og skiluðu frábæru starfi og hefur verið tekin ákvörðun um að Keilir haldi rekstri áfram enda lærðum við mikið af þessu fyrsta tímabili. Skálinn er því nú alfarið í rekstri Keilis sem styður vel við okkar innra starf.

Framkvæmdir á árinu

Eftir mikið hamfaravor fór mikil orka hjá vallarstarfsmönnum í að koma vellinum til í byrjun sumars þar sem bæði brautir og flatir voru einstaklega illa farnar, ekki var hægt að hleypa inn á 16. flöt fyrr en í lok júní og þó svo spilað væri á öðrum flötum voru þær varla hæfar til notkunar fyrstu tvo mánuðina.

Framkvæmdir við völlinn héldu svo áfram, framkvæmdum á nýju 17. holu er nánast lokið en vinna við verðandi 16 braut ( núverandi 10-11 ) heldur áfram í vetur og stefnum við á að spila nýjan Hvaleyrarvöll hér í byrjun næsta vors. Það er mikil spenna fyrir að þessum lokakafla framkvæmda ljúki en hann hófst árið 2015 og hefur því tekið um það bil níu ár að byggja upp nýja Hvaleyri.

 

Áhaldahús

Vinna við áhaldahús hefur gengið mjög vel eftir að framkvæmdaleyfi var loks komið í hús og eru fyrstu vélar komnar í geymslu. Þetta hús mun gjörbreyta aðstöðu okkar bæði fyrir starfsmenn og vélaflota.
 

Vinnuhópur um breytingu á golfskála. 

Vegna anna var störfum vinnuhóps um breytingu golfskála aðeins slegið á frest en gert er ráð fyrir að þráðurinn verði tekinn upp aftur á nýju ári.

 

Æfingasvæðið

Farið var í þær breytingar í Hraunkoti að setja upp þjónustu sem gerir að kleyft að hafa húsið svo gott sem mannlaust. Það er mikill sparnaður fólginn í þessu og hefur þetta reynst vel.  Því er svigrúm til að betrumbæta æfingasvæðið og verið er að vinna að frágangi samninga við Trackman um nýja golfherma fyrir inniaðstöðu og útiaðstöðu þar sem að settir verða upp hermar í básana.  Þetta mun gjörbylta allri aðstöðu fyrir kylfinga Keilis og ef allt gengur upp ættum við að geta tekið þetta nýja kerfi í notkun í vor.

 

Góður árangur afrekskylfinga

Árangur okkar fólks í íþróttastarfinu var góður. Náðum við samtals 41 sæti á verðlaunapalli þegar horft er í öll mót hér á landi og erlendis.

Markús Marelsson náði góðum árangri á sínum vettvangi. Má þá helst nefna 2. sæti á European Young Masters sem er með sterkari unglingamótum í Evrópu, þar að auki sigraði hann tvö alþjóðleg unglingamót.

Halldór Jóhannson lék stöðugt golf allt sumarið og varð stigameistari í sínum aldursflokki. Þá lenti hann í 2. sæti í íslandsmóti unglinga í höggleik og vann síðan íslandsmót unglinga í holukeppni

Þórdís Geirsdóttir kom, sá og sigraði íslandsmót eldri kylfinga og bætti þar af leiðandi einum íslandsmeistaratitil við í sitt safn.

Þá varð Keilissveit kvenna 50+ íslandsmeistari klúbba en hefur þeim farnast vel s.l. ár

Axel Bóasson átti gott tímabil á Nordic League mótaröðinni. Hann lenti 6 sinnum á verðlaunapalli, og þar af með einn sigur. Hápunktur tímabilsins hjá honum var þó klárlega að enda í 5. sæti á stigalista mótaraðarinnar sem tryggði honum þáttökurétt á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour). Guðrún Brá leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún er með takmarkaðan þáttökurétt. Hún hefur tekið þátt í tíu Evrópumótum á árinu og var hennar besti árangur á Belgian Ladies Open í maí.

Annars þá vísa ég í samantektartöflu um helstu afrek okkar fólks hér í skýrslunni.

Íþróttastarf 

Sem fyrr fer Karl Ómar Karlsson fyrir íþróttastarfinu.  Hann er grunn- og framhaldsskólakennari að mennt og SPGA golfkennari og hefur hann yfir að ráð hóp þjálfara sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti. Við höfum tryggt okkur góða breidd þjálfara og auglýstum nú í haust eftir sérstökum afreksþjálfara. Mikil áhersla hefur verið lögð á barna og -unglingastarfið s.l. ár og það er hægt og rólega að byggjast upp góður hópur kylfinga sem við bindum miklar vonir við. Það liggur mikil vinna í því að ná börnun og unglingum í starfið og erum við í harðri samkeppni við aðrar íþróttir. Boðið hefur verið upp á mikinn sveigjanleika í æfingatöflu þannig að þau börn sem eru með golf sem aðra íþrótt geti sniðið æfingarnar að sínum þörfum og hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel í vetur og eins og sjá má á töflu undir íþróttastarfi að árangur yngri kylfinga hefur aukist ár frá ári og eru þau farin að raða sér í efstu sætin í flest öllum aldursflokkum.  Barna og – unglingastarf Keilis er nú komið í fremstu röð meðal Golfklúbba á landinu og því spennandi tímar framundan.

Ávallt er lögð áhersla á að allir geti notið sín innan starfsins.
 

Félagsstarf

Meistaramót gekk vel og tóku 337 kylfingar þátt í ár í 22 flokkum og urðu þau Anna Sólveig Snorradóttir og Daníel Ísak Steinarsson klúbbmeistarar árið 2023

Sjaldan hefur veðrið leikið jafn vel við kylfinga og þetta Meistaramótið og er það kærkomin tilbreyting frá fyrra ári.

Már Sveinbjörnsson var áfram formaður starfs  eldri kylfinga en með honum störfuðu þau Björk Ingvarsdóttur, Erna Jónsdóttir, Lucinda Grímsdóttir og Gunnar Hjaltalín.  Mótaröðin var eins og áður áður fyrir 65 ára og eldri og voru haldin 7 mót og endaði sumarið með veglegu lokahófi

Elín Soffía Harðardóttir var formaður kvennanefndar en með henni störfuðu þær Kristín Geirsdóttir, Nína Edvardsdóttir, Rósa Lyng Svavarsdóttir, Sigrún Einarsdóttir og Sigurlaug Jóhannsdóttir.

Kvennastarfið var öflugt eins og alltaf, púttmótaröð og miðvikudagsmótaröð var á sínum stað og var haustferðin að þessu sinni farin til Reykjanesbæjar þar sem spilað var á Leirunni. Kvennanefndin hefur haft veg og vanda af glæsilegu kvennamóti s.l. ár í samstarfi við fyrirtæki í Hafnarfirði og var það haldið í byrjun ágúst.  150 konur mættu í mótið  og var það glæsilegt að vanda og Kvennanefnd Keilis og Golfklúbbnum Keili til mikils sóma.

Jónsmessan var með stærsta móti og tóku 112 manns þátt og er þetta mót ásamt bændaglímunni ein skemmtilegustu mót ársins og yfirleitt mikið fjör. Á bændaglímunni þetta árið kvöddu kylfingar svo tíundu og elleftu braut en voru þær þá spilaðar í síðasta skipti fyrir lokun.

Ég þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu að starfi Keilis á einn eða annan hátt á árinu og hjálpuðu til við að gera starfsemi félagsins sem veglegasta en án þeirra væri ekki hægt að reka þessa svona félagsskap. 

Formaður kveður 

Þetta er í síðasta sinn sem ég flyt lokaorð hér en ég hef verið meðlimur hér frá árinu 2011 og byrjaði í kvennanefndinni sama ár og varð svo formaður kvennanefndar, ég kom svo inn í stjórn árið 2015 og hef verið formaður s.l. 5 ár eða frá árnu 2018. Þannig að ég hef unnið að félagsstörfum fyrir klúbbinn allan þann tíma sem ég hef verið hér skráður meðlimur.  Þetta er búin að vera frábær tími í alla staði og  lærdómsríkur, það er mikið búið að gerast, ný Hvaleyri í augnsýn, vöxtur í barna- og unglingastarfi,  stækkun golfskála, nýtt áhaldahús, betrumbætt æfingasvæði að detta í hús þannig að það hefur ekki verið nein lognmolla þessi ár.  Það hafa verið algjör forréttindi að fá að vinna með þessu frábæra fólki sem hér starfar og fylgjast með hve faglega er staðið að öllum hlutum og ég tel við Keilisfólk getum öll sem eitt verið mjög stolt af okkar Golfklúbb enda leitun að jafn flottri starfsemi og hér fram og jafn góðum anda.

Takk fyrir mig
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir 
Formaður