Golfsumarið 2023
– Skýrsla vallarstjóra
Golfsumarið 2023 byrjaði heldur seint í samanburði við síðustu ár. Vellirnir urðu fyrir gríðarlegu tjóni um veturinn og fresta þurfti opnun Hvaleyrarvallar til mánaðarmóta maí/júní.
Hreinsunardagurinn var haldinn 27. maí og opnunarmótið þann 28. Hreinsunardagurinn gekk vel og var vel sóttur. Þrátt fyrir skemmdir á völlunum hóst golfsumarið með látum í framahaldinu.
Eftir erfiðan vetur var maímánuður einnig mikil vonbrigði. Kalt var í veðri, úrkoma tvöfalt meiri en á meðalári og sólarstundir aldrei mældar færri. Lítið var þó um golf þar sem fresta þurfti opnun. Starfsmenn unnu hörðum höndum við að koma vellinum í spilanlegt stand og undirbúa spilafleti fyrir komandi álag.
Miklar vonir voru bundnar við júnímánuð þar sem mörg svæði þurftu á skjótum bata að halda. Því miður hélt veður áfram að stríða okkur og var júní, líkt og maí, óvenju blautur og kaldur. Golfþyrstir kylfingar létu veður þó ekki stoppa sig og þurfti því að grípa til aðgerða til að vernda allra viðkvæmustu svæðin. Helst ber þar að nefna mottuskyldu á brautum 2 & 3 ásamt bráðabirgðaflöt á 16. braut.
Eftir erfiða byrjun fór loks að sjá til sólar í júlí. Veður var með besta móti, hitastig við meðaltal, mikið sólskin og lítil eða engin úrkoma. Eins og gefur að skilja voru vellirnir mettaðir af golfurum allan mánuðinn. Meðbyrinn var nýttur af starfsmönnum og metmagni af fræjum var sáð í vellina okkar. Meistaramótið var haldið í frábæru veðri en ólíkt síðustu árum var Hvaleyrarbikarinn ekki haldinn í júlí. Sú breyting kom okkur afar vel þar sem enn var unnið hörðum höndum við sáningar og aðrar aðgerðir til að loka verstu sárum vetrarins.
Veðrið hélt áfram að leika við okkur í Ágúst, sem var hlýr og þurr og hrikaleg byrjun á tímabilinu farin að falla í skugga frábærs seinni hluta. Ekkert lát var á golfspili og sennilega aldrei verið fleiri hringir spilaðir í ágúst. Ásamt daglegu viðhaldi fóru starfsmenn einnig að einbeta sér að framkvæmdum. Lokahönd lögð á nýju 17. brautina og undirbúningur fyrir sameiningu 10. Og 11. brauta.
Veður í haust hélt áfram að vera mjög gott og óvenju lítið um sterkar lægðir.
Holum 10, 11 og 12 var svo lokað um mánaðarmótin sep/okt þegar framkvæmdir hófust við sameiningu 10. Og 11. Brauta. Þrátt fyrir lokunina var mikið golf leikið í haust og var töluvert um daglegt spill alveg til lokunar Hvaleyrarvallar, þann 10. nóvember.
Starfsmenn
Á fastráðnum starfsmönnum urðu þær breytingar að Sigursteinn Guðjónsson lét af störfum sem vélvirki klúbbsins. Í stað Sigursveins var ráðinn Sigurgeir Sigurðsson. Sigurgeir er lærður vélvirki og reynslumikill á sviði vélaviðgerða.
Ingibergur Alex, sem starfað hefur á vellinum síðustu ár, auk þess að sem hann sótti nám í Svíþjóð á vegum Samtaka evrópskra golfvallastarfsmanna, bættist einnig í hóp fastráðinna.
Auk fastamanna voru það svo þeir Bjarki Freyr Ragnarsson og Kristófer Kári Þorsteinsson sem unnu með okkur inn í veturinn svo hægt væri að klára sem flest verkefni á meðan veður var hagstætt.
Úthlutun starfsmanna til klúbbsins frá Vinnuskóla Hafnarnarfjarðar var í takti við síðustu ár.
Sem áður skal tekið fram hversu mikilvægir starfsmenn frá vinnuskólanum eru fyrir okkur til að standa undir þeim kröfum sem á okkur eru settar. Fækkun þessa starfsmanna hefðu óneitanlega mikil neikvæð áhrif á okkar rekstur.
Alls voru 20 starfsmenn á vellinum í sumar og þar af 15 með tímabundna ráðningu.
Starfsmenn með tímabundna ráðingu árið 2023 voru:
Atli Hrafnkelsson
Andri Freyr Baldursson
Bjarki Freyr Ragnarsson
Daníel Andri Styrmisson
Gísli Rúnar Jóhannsson
Helgi Valur Ingólfsson
Jason Sigþórsson
Jón Örn Ingólfsson
Jónas Bjartmar Jónasson
Kristján Hrafn Ágústsson
Kristófer Kári Þorsteinsson
Krummi Týr Gíslason
Sverrir Leó Ólafsson
Tristan Snær Daníelsson
Þorsteinn Ómar Ágústsson
Fastráðnir starfsmenn eru:
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson
Haukur Jónsson
Rúnar Geir Gunnarsson
Ingibergur Alex Rúnarsson
Sigurgeir Sigurðsson
Vélakaup
Mikið af kostnaðarsömum verkefnum lágu fyrir á árinu og héldum við því höndum að okkur í vélakaupum þetta árið. Helst ber að nefna nýja tínslugrind sem sett er framan á vinnubíl til þess að safna saman æfingaboltum. Grindin er mun léttari en sú gamla, sem einnig var komin til ára sinna. Grindin fer því mun betur með svæðið, sérstaklega yfir viðkvæmustu mánuðina.
Almennt viðhald
Starfsmenn mættu miklum áskorunum snemma í vor, þegar ljóst var að vetrarskaði á völlunum okkar var gífurlegur. Langur og harður frostakafli í mars varð til þess að stór hluti vallarsveifsgrass á svæðinu drapst. Vallarsveifsgras er mjög algeng og ágeng grastegund sem þýddi að skaðinn varð mjög mikill og víðtækur. Þó aðrar tegundir hafi ekki þurrkast út í sama magni tók kuldinn mikið á og var það okkar mat að grösin hafi verið amk. 3-4 vikum seinni til en á meðal vori.
Framan af sumri einkenndist því viðhald vallanna meira af því að rækta upp ný grös en vanalega. Þrátt fyrir seinkun opnunar var mjög erfitt að ná upp viðunandi grasþekju á mörgum svæðum vallanna. Veður var óhagstætt og skaðinn mikill.
Til þess að vernda allra viðkvæmustu svæðin þurftum við einnig að grípa til óvenjulegra aðgerða. Þar ber hæst að nefna mottuskyldu á brautum 2 og 3 og bráðabirgðaflöt á braut 16. Vel tókst til með báðar aðgerðir og kom það skemmtilega á óvart að þessi svæði fóru frá því að vera þau verstu við opnun, í að vera með þeim betri eftir hvíldina. Þetta minnir okkur því einnig á, hve mikil áhrif umferð og áreiti hafa á gæði grasflata og tækifæri þeirra til bata. Brautir 2 og 3 komu einstaklega illa út úr vetrinum og var þess vegna farið í ágengari aðgerðir þar en á öðrum brautum. Þær aðgerðir voru ekki síður hugsaðar sem fyrirbyggjandi. Jarðvegssamsetning þessa brauta hefur gert það að verkum að þær þoli illa alls kyns álag.
Fyrst voru þær slegnar djúpt (1cm) með lóðréttum slætti (verti cut) til að fjarlægja þæfislag. Því næst voru brautirnar sandaðar, fræum sáð í sárin og svo loks gefinn áburður. Um mánuði seinna fengu brautirnar svo sömu meðferð að skurðinum frátöldum.
Ljóst var orðið seinni part sumars að ef ekki yrði brugðist við myndi ekki takast að loka öllum þeim sárum sem mynduðust á flötum í vor og var því ákveðið að bregðast við á verstu flötunum. Flatir 2, 3 og 11 voru þá gataðar með tappateinum, sandaðar, sáð var í þær og auka áburður gefinn. Þetta er mesta inngrip á flötum á vellinum í langan tíma en töldum við nauðsyn að gera hvað við gátum til þess að ná grasþekju sem víðast fyrir haustið. Aðgerðirnar tókust vel og náðu flatirnar ágætis bata í haust.
Utan tíðari yfisáninga, sandana og áburðargjafa var almennt viðhald flata með sama sniði og undanfarin ár. Hugmyndafræðin var aftur að fylgjast vel með og mæla þá hluti sem skipta okkur mestu máli s.s rakastig, sláttumagn og flatahraða. Upplýsingar úr mælingum svo nýttar til hnitmiðaðra aðgerða.
Brautir fengu meiri áburð yfir tímabilið en oft áður og valdar brautir svo yfirsáningar og sandanir. Svunturnar voru í meira magni úðaðar samhliða flötunum, sem gaf okkur betri stjórn á vextinum. Borið var á teiga með hæglosandi áburði í vor og valdir teigar svo úðaðir í sumar. Teigar voru sandaðir vel í vor yfirsáð í þá í júní.
Með góðu eftirliti tekst okkur enn að bera mjög ábyrgt á flatirnar. Vel er fylgst með því hvenær tímabært er að nota áburð og lítið borið á í hvert skipti og heldur oftar.
Í heildina fóru eftirfarandi næringarefni á flatir:
Köfnunarefni 120 kg/ha – Fosfór 36 kg/ha – Kalí – 35 kg/ha – Járnsúlfat 30 kg/ha auk vaxtarletjandi efna, vatnsmiðlunarefna og annarra snefilefna.
Almennt viðhald og sláttur á völlunum okkar var með sama sniði og síðustu ár og sláttutíðni eftirfarandi:
Flatir – sláttur 4x í viku, völtun 3x í viku
Teigar – sláttur 3-4x í viku
Svuntur – sláttur 3-4x í viku
Brautir – sláttur 3x í viku
Brautarsvuntur – 2x í viku
Kargi – 1x í viku
Sveppalyfjum var úðað út eftir síðasta flataslátt og voru flatir svo gataðar með 10mm teinum í nóvember.
Sveinskotsvöllur
Mikill kraftur var settur í Sveinskotsvöll haustið 2022. Sjálfvirkt vökvunarkerfi var lagt í allar flatir og teiga sem ekki höfðu það fyrir. Við höfum lengi haldið því fram að lagning vökvunarkerfis í völlinn, gæfi okkur tækifæri á því að koma leiksvæðum hans á næsta stig. Tækifærið var nýtt og fékk Ingibergur Alex það hlutverk að koma Sveinskotsvelli í gott stand fyrir sumarið.
Vel tókst til og fór völlurinn snyrtilegri en nokkru sinni fyrr inn í tímabilið.
Almennt viðhald Sveinsskotsvallar var með sama sniði og Hvaleyrarvallar í sumar. Líkt og á öðrum svæðum þurfti að rækta upp töluvert af nýju grasi á Sveinskotsvelli. Ingibergur sá um sérhæfða vinnu á vellinum s.s. sáningar, söndun og vökvun, auk þess að hafa eftirlit með daglegu viðhaldi vallarins. Framundan eru spennandi tímar fyrir Sveinskotsvöll og munum við halda áfram bæta völlinn með það að markmiði að völlurinn muni bjóða upp á bestu mögulegu spilafleti.
Vélafloti
Lítið breyttist í vélaflota klúbbsins í ár. Klúbburinn fór í önnur kostnaðarsöm verkefni á árinu og ekki þótti nauðsyn á endurnýjun véla. Starfsmenn fylgjast enn grannt með þróun slátturóbota sem við teljum sífellt fýsilegri kost við slátt á stærri svæðum, s.s. brautum. Ásamt slátturóbotum er framþróun á rafmagnssláttuvélum einnig mikil. Okkar elstu vélar eru í dag þær sem sjá um teiga og svuntuslátt. Við sjáum ekki fram á að slátturóbotar komi í þeirra stað á næstu árum og erum við því að líta til ásetusláttuvéla, knúnum áfram einungis á rafmagni. Líkt og síðustu ár höfum við notað haustin vel og náð að inna af hendi fjölmörgum verkefnum. Þessi verkefni eru þó oft bundin við notkun dráttarvéla og hefur skortur á þeim verið ákveðinn flöskuháls. Í ár leigðum við dráttarvél til þess að auka afköstin en alvarlega þyrfti að íhuga hvort borgaði sig ekki að eiga aðra vél.
Útseld þjónusta
Útseld þjónusta klúbbsins hefur verið nokkuð svipuð síðustu ár en nú sjáum við fram á ákveðar breytingar. Í ár höfðum við ekki umsjón með púttflötum á Hrafnistu. Ekki er víst hvernig framhaldið verður en ólíklegt er að við munum sjá um það í framtíðinni.
Ljóst er að brýningarþjónusta dragist saman frá og með komandi vetri. Æ fleiri klúbbar hafa fjárfest í tækjum til brýninga síðustu ár og eru flestir stærri klúbbar nú vopnaðir brýningarbekkjum. Sem stendur eru klúbbarnir mest megnis að brýna sín eigin kefli og munum við halda áfram að þjónusta flesta okkar viðskiptavini. Stóru klúbbarnir hafa þó sent til okkar mikið magn kefla ár hvert og mun því óneitanlega draga saman á þessu sviði. Það er ekki alslæmt því umfangið var orðið svo mikið að vorverk voru oft farin að líða fyrir.
Þó er ekki samdráttur á öllum sviðum. Með tilkomu nýs æfingasvæðis hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, mun þjónusta okkar við grassvæði bæjarins aukast. Ásamt aukningu á svæðum þá glímum við einnig við nýja tegund grasvallar sem er svokallaður Hybrid-völlur.
Ólíkt algengum hugmyndum þarfnast Hybrid-vellir meira viðhalds en hefðbundnir grasvellir. Þjónusta okkar við bæinn mun því aukast, bæði með auknu flatarmáli sem og nýjum tegundum valla sem þarfnast enn sérhæfðari umhirðu.
Nýframkvæmdir
Unnið var í tveimur nýjum brautum á árinu. Verðandi 16. holu (par 5) og verðandi 17. holu (par 3). 17. hola, sem var tilbúin að mestu, fór illa í vetur og þurfti því meiri tíma til að koma henni í stand en til stóð. Auk endurheimt grass á 17. holu voru gerðar gönguleiðir með sjálfvirku vökvunarkerfi, bæði frá 17. teig að 17. flöt og frá 17. tlöt að 18. teig. 17. brautin er því svo gott sem tilbúin til opnunar utan smávegis tyrfinga á gönguleiðum, sem bíða fram á vor.
Fyrri fasi sameiningar 10. og 11. brauta var unninn sumarið 2022 þegar mótað var fyrir glompum og sáð í hluta brautarinnar. Seinni fasi framkvæmdarinnar var svo framkvæmdur í ár. Mánaðarmótin sept/okt kom til okkar gröfumaður að utan. Marcus, sem áður hafði unnið við gerð 16. Brautar er einnig eigandi „1st golf construction“ hefur hefur unnið með okkur við mótun síðustu ár. Marcus var hjá okkur í tæpar 2 vikur og tókst á þeim tíma að fjarlægja gömlu 10. flötina og móta fyrir nýrri braut á verðandi 16. Einnig mótaði hann fyrir aftari teig. Vikurnar á eftir fóru svo í frágang og tyrfingu á svæðinu auk uppbyggingu fremri teiga. Alls voru tyrfðir um 7000 m2. Enn er unnið við frágang á svæðinu og vonumst við til þess að lítið verði eftir í vor.
Bæði 16. og 17. braut þurfa að vera klárar til golfleiks vorið 2024 en þá verður Hvaleyrarvöllur leikinn í sinni endanlegu mynd. Stóru og löngu framkvæmdaferli mun því formlega ljúka við opnun vallar 2024. Næstu ár munu starfsmenn svo nýta til betrumbóta á þeim brautum sem gerðar hafa verið síðustu ár. Þær betrumbætur verða unnar í samstarfi með Tom McKenzie golfvallaarkítekt sem hannaði enduskipulagningu Hvaleyrinnar.
Árið 2023 var einnig ákveðið á ráðast til framkvæmda við byggingu nýrrar vélageymslu en lengi hefur verið þörf á betri aðstöðu fyrir bæði menn og vélar hjá klúbbnum. Ákveðið var að reisa stálgrindarhús milli litla skýlis og núverandi áhaldahúss. Húsið sem er um 480m2 mun hýsa vélar klúbbsins og gera okkur kleyft að breyta núverandi vélaskemmu í verkstæði og starfsmannaðstöðu sem uppfylla skilyrði og kröfur í nútíma samfélagi. Vinna við húsið gengur bærilega, þó tafir hafi orðið á flestum stigum framkvæmdarinnar. Stefnt er að því að loka húsinu sem allra fyrst því klúbburinn hefur ekki leigt geymslu undir vélar líkt og síðustu ár. Vélarnar okkar eru margar hverjar geymdar úti og þær sem ekki eru það þekja hjá okkur öll gólf svo erfitt er að athafna sig í húsinu. Stefnt er svo að því að veturinn 2024 fari í að endurskipuleggja, breyta og bæta aðstöðuna í núverandi áhaldahúsi.
Lokaorð
Árið sem er að líða var óvenjulegt að mörgu leiti. Veturinn var óhagstæður og vorið litlu skárra. Það birti þó heldur betur til seinnipart sumars og vonandi verða minningarnar af sumrinu í takt við það. Við megum þó ekki gleyma þeirri baráttu sem háð var við að koma völlunum í rétt horf. Þrátt fyrir skrýtna og óvenjulega tíð, sem kölluðu á óvenjulegar aðgerðir, verðum við að taka með okkur allan þann lærdóm sem úr varð.
Með aukið vopnabúr lítum við bjartsýn til komandi árs, opnunar tveggja nýrra hola og hlökkum til að bjóða kylfingum að leika á endurskipulagðri Hvaleyri.
F.h. vallastarfsmanna
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson